Visit Reykjanesbær

Skessan í hellinum

Skessan er allra vinur og boðin og búin til að nota stærð sína og krafta til hjálpar í vanda smákrílanna, vina sinna.

Heimili hennar er fábreytt og því tekur hún fagnandi á móti snuddum sem börn hafa ekki lengur not fyrir en þau notar hún til að skreyta hjá sér.

Finna má hellinn hennar við smábátahöfnina í Gróf en þar situr hún löngum stundum við eldhusgluggann í ruggustólnum sínum og horfir yfir  Keflavíkina og Faxaflóann. 

Eins og trölla er siður sefur skessan ægilega mikið og heyra má hrotur hennar langar leiðir, hvað þá ef hún leysir vind en þá verða miklir skruðningar og læti.

Svona geta tröllskessur verið. En það er ekkert að óttast, hún er ljúfasta tröll sem til er.

Skessan er hugverk Herdísar Egilsdóttur sem árið 1959 gaf út fyrstu bókina um Siggu og skessuna í fjallinu. Sögurnar hafa hlotið hylli barna og í tilefni af opnun hellisins á Ljósanótt 2008 kom út 16. bókin sem kallast Sigga og skessan á Suðurnesjum.

Staðsetning

Meira til að sjá og skoða

Leitaðu ekki langt yfir skammt og njóttu þess sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða